Open Club Day er verkefni Live DMA með stuðningi frá Creative Europe. Það er Tónlistarborgin Reykjavík sem hefur veg og vanda af skipulagningu dagsins hér í samstarfi við tónleikastaðina. Vegna heimsfaraldurs verður ekki hægt að standa fyrir viðburðum á tónleikastöðunum og því verður alfarið haldið upp á daginn á netinu í ár. Í sameiginlegri yfirlýsingu frá skipuleggjendum og þátttakendum í Open Club Day um alla Evrópu kemur fram að grípa skuli tækifærið til að auka skilning stjórnvalda og annarra á erfiðu rekstrarumhverfi staðanna sem þó búa yfir þeim krafti að sameina fólk og fylla samfélög okkar af lífi.
Dagskrá Open Club Day í Reykjavík í ár felst fyrst og fremst í því að minna fólk á tónleikastaðina sem hafa flestir verið lokaðir eða þurft að vera með starfsemi í lágmarki nær allt síðast liðið ár.
Í dag föstudaginn 5. febrúar klukkan 11 verða pallborðsumræður í streymi þar sem rætt verður um mikilvægi, hlutverk og framtíð tónleikastaða í Reykjavík en auk fulltrúa frá tónleikastöðunum og verkefnastjóra Tónlistarborgar taka þeir Hjálmar Sveinsson formaður íþrótta-, menningar- og tómstundaráðs Reykjavíkur og Baldur Þórir Guðmundsson sérfræðingur á sviði tónlistar hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu þátt í umræðunum.
Laugardaginn 6. febrúar kl 14:00 verður streymt frá öllum tónleikastöðum sem taka þátt í deginum í Reykjavík samtímis sem tákn um samstöðu á fordæmalausum tímum og til að minna á tilvist og mikilvægi staðanna.
Staðirnir sem taka þátt í Open Club Day Reykjavík í ár eru Mengi, Gaukurinn, Hard Rock Café, Hannesarholt, R6013, Gamla bíó og Prikið.