Skip to main content
Verkefni

Samfélagsleg tónlistarverkefni

Tónlistarsmiðja Söguhringur Kvenna 

Söguhringur kvenna er samstarfsverkefni Borgarbókasafns Reykjavíkur og Samtaka kvenna af erlendum uppruna. Söguhringurinn skapar vettvang þar sem konur af erlendum sem og íslenskum uppruna skiptast á sögum og skapa saman. Árið 2019 buðu Söguhringurinn og Tónlistarborgin upp á upp á tónlistarsmiðju fyrir konur þar sem tónsköpun var notuð til að deila sögu og reynslu. Á námskeiðinu lærðu konurnar að semja og flytja nýja tónlist og var smiðjan opin öllum þeim konum sem höfðu áhuga á tónlist og ljóðlist. Reynsla af tónsköpun eða -flutningi var ekki nauðsynleg.

Smiðjunum var stýrt af Sigrúnu Sævarsdóttir-Griffiths, Kristínu Blöndal og Sigrúnu Kristbjörgu Jónsdóttur. 

 

Korda Samfónía

Hvað gerist þegar 35 manneskjur úr ólíkum áttum koma saman til að semja og flytja tónlist? Sprenglært tónlistarfólk, nemendur, sjálfsmenntað tónlistarfólk og fólk sem aldrei hefur lagt stund á tónlist?

Tónlistarborgin réðst í stórt verkefni 2021 í samstarfi við Listaháskóla Íslands, Sinfóníuhljómveit Íslands, Hörpu, Sigrúnu Sævarsdóttur-Griffiths hjá Metamorphonics, Hugarafl og ýmsar starfsendurhæfingarstöðvar. Verkefnið fólst í stofnun samhljómsveitar með þátttakendum frá starfsendurhæfingarstöðum, tónlistarnemendum frá LHÍ og meðlimum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hljómsveitin hélt tónleika í Hörpu vorið 2021 við gríðargóðar undirtektir og ánægju þátttakenda og samstarfsaðila. Í kjölfar tónleikanna voru haldnar umræður um gildi tónlistar sem meðferðarúrræði innan velferðar- og heilbrigðisgeirans og mikilvægi þess fyrir starfandi tónlistarfólk og tónlistarnemendur að tengjast öllum hliðum samfélagsins. Verkefnið endurtekið með nýjum þátttakendum 2022.

SJÁ MEIRA
This site is registered on wpml.org as a development site.