Skip to main content
Verkefni

Stuðningur við tónleikastaði

Frá stofnun Tónlistarborgarinnar hefur mikil vinna hafi farið í að skoða rekstrarveruleika tónleikastaða í borginni. Stofnað var til samtals við forsvarsmenn tónleikastaðanna, hugmyndir mótaðar í nánu samstarfi við staðina, framkvæmd voru djúpviðtöl við forsvarsmenn nokkurra tónleikastaða og skýrsla tekin saman með helstu niðurstöðum. Auk þessa var skipaður þriggja manna faghópur sem gerði úttekt á tónleikastöðum í samráði við þá. Fjölmargar hugmyndir um aukinn stuðning borgarinnar við tónleikastaði voru viðraðar og mótaðar upp að vissu stigi en sú sem fékk hvað mest brautargengi til er úrbótasjóðurinn sem settur var á laggirnar sumarið 2019.

 

Ein af meginstoðum hverrar tónlistarborgar er sá vettvangur sem er til staðar fyrir lifandi tónlistarflutning, tónleikastaðirnir. Undanfarin ár hefur sú þróun átt sér stað í borgum, ekki einungis á Íslandi heldur um allan heim, að tilvist minni og miðlungsstórra tónleikastaða hefur verið ógnað. Ástæðurnar eru einna helst þétting byggðar og aukinn ferðamannastraumur sem breytir ásýnd borga, einkum miðsvæðis. Tónleikastöðum er lokað vegna byggingar hótela og íbúðakjarna eða leigan hækkar og reynist of stór biti að kyngja. Þversögnin er sú að engin er borg án mannlífs og flestir eru væntanlega sammála því að  tónleikastaðir og ýmis konar menningarstarfsemi er stór hluti af því sem gerir borgir aðlaðandi heim að sækja eða búa í. 

This site is registered on wpml.org as a development site.