Tónlistarborgin Reykjavík, ásamt hópi tónleikastaða í borginni, hafa fengið tæplega 5 milljóna króna styrk frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins undir átakinu „Music Moves Europe: Co-operation of Small Music Venues“
Framkvæmdastjórnin telur að með því að stuðla að nýsköpun og auknu samstarfi á milli tónleikastaða og sterkari ímynd og auknu vægi tónleikastaðanna í þeirra nærumhverfi verði til sjálfbærara umhverfi fyrir lifandi tónlist þar sem samkeppnishæfni tónleikastaðanna eykst og sömuleiðis færni þeirra til að rata um það reglugerðarumhverfi sem þeim er búið.
Tónlistarborgin sem hafði veg og vanda af umsókninni er stolt af því að umsóknin hafi fengið meðbyr og verið ein af þeim 12 sem ákveðið var að styrkja af miklum fjölda umsókna. Verkefni Tónlistarborgarinnar og tónleikastaðanna ber heitið Lífvænlegir tónleikastaðir: Að tryggja sjálfbæra framtíð lítilla tónleikastaða í Reykjavík.
Markmið verkefnisins eru þrjú:
- Búa til vettvang þar sem stofnanir og skrifstofur innan borgarinnar sem koma að leyfisveitingum miðla þekkingu til tónleikastaðanna. Stuðla að uppbyggilegu samtali á milli þessara aðila og tónleikastaðanna um það sem betur má fara
- Fræða rekstraraðila tónleikastaðanna og tónlistarfólk um tónleikahald og kynningu og markaðsmál með aðaláherslu á að ná til nýrra áheyrenda – ungs fólks og ferðamanna. Hér verður lögð áhersla á nýsköpun og samstarf tónleikastaðanna.
- Formgera samstarf tónleikastaða borgarinnar með því að koma á samtökum eða formlegum samstarfsvettvangi þeirra til að stuðla að enn frekari samvinnu og tryggja framhald á þeim aðgerðum sem farið verður í undir hatti verkefnisins.
Tónleikastaðirnir sem sóttu um ásamt Tónlistarborginni eru Gaukurinn, Mengi, Dillon og Hannesarholt en verkefnið verður þó unnið með öllum áhugasömum tónleikastöðum í borginni. Á meðal utanaðkomandi aðila sem taka þátt í verkefninu má nefna Music Venue Trust í Bretlandi, Berlin Club Commission , Live DMA, LiveFin, Heilbrigðiseftirlitið og Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar. Verkefnið hefst um miðjan febrúar og nær yfir næstu 14 mánuði.
Open Club Day – 6. febrúar nk.
Undanfarin ár hefur Tónlistarborgin Reykjavík átt í margvíslegu samstarfi við tónleikastaði borgarinnar. Úrbótasjóður tónleikastaða er m.a. runninn undan rifjum Tónlistarborgarinnar og þess má geta að Tónlistarborgin skipuleggur þátttöku tónleikastaða í Open Club Day, evrópsku verkefni sem hefur það að markmiði að vekja athygli á þeirri starfsemi sem fer fram á tónleikastöðum, þeim störfum sem þeir skapa og því mikilvæga hlutverki sem þeir gegna fyrir menningarlíf borga. Open Club Day í ár fer fram laugardaginn 6. febrúar og verður dagskráin alfarið á netinu. Nánar verður sagt frá Open Club Day Reykjavík á næstu dögum.