Skip to main content
Verkefni

Ungt tónlistarfólk

Hitakassinn

Tónlistarborgin Reykjavík í samstarfi við Hitt Húsið og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar bjóða fulltrúum atriðanna sem komast áfram í úrslit á Músíktilraunum 2022 til þátttöku í skemmtilegu og hagnýtu námskeiði um tónlistariðnaðinn sem fram fer eftir keppnina.

Á námskeiðinu sem byggist upp á skemmtilegum fyrirlestrum, pallborðsumræðum og hagnýtum verkefnum verður farið yfir allt það helsta sem tónlistarfólk ætti að vita um tónlistariðnaðinn.

Þátttakendur fá aðstoð við markaðssetningu, kynningu og gerð kynningarpakka, sem og hjálp við skilgreiningu á markhóp sínum, leiðslu í fjármálarekstri tónlistarverkefnis, úrlausn tækniatriða með fagfólki og fleira. Einnig verður mikil áhersla lögð á að efla tengslanet þátttakenda innan íslenska tónlistariðnaðarins með þekktum gestafyrirlesurum.

Eftir námskeiðið verður blásið til tónleika þar sem þátttakendur fá tækifæri til þess að spila fyrir lykilfólk innan íslenska tónlistariðnaðarins og láta reyna á það sem kennt var á námskeiðinu.

Markmiðið með Hitakassanum er að valdefla ungt tónlistarfólk sem er að stíga sín fyrstu skref í tónlistinni með því að auka þekkingu þess á tónlistariðnaðinum þannig að það verði betur í stakk búið til að þróa sinn feril og taka góðar ákvarðanir varðandi hann strax í upphafi. Þetta verður í þriðja skiptið sem Hitakassa námskeiðið fer fram síðan 2019 en það hefur vakið mikla lukku meðal þátttakenda og nýst sem góður grunnur til að byggja á auk þess sem þau hafa fengið tækifæri til að komast í kynni við fólk í tónlistariðnaðinum og byggja upp sambönd sem koma að góðum notum síðar. 

 

Upptakturinn

Með Upptaktinum, tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna, er ungu fólki gefið tækifæri til að senda inn tónsmíð og vinna markvisst úr hugmyndum sínum með listnemum og listamönnum.

2022 verður blásið til leiks, tíunda árið í röð, þar sem ungmenni í 5. – 10. bekk eru hvött til að semja tónlist og þau sem komast áfram taka þátt í tónlistarsmiðju með nemendum skapandi tónlistarmiðlunar við Listaháskóla Íslands, auk þess að vinna að útsetningum undir leiðsögn nemenda Tónsmíðadeildar. Að þessu ferli loknu höfum við eignast nýtt tónverk sem við getum flutt á tónleikum og varðveitt með upptöku. Markmið Upptaktsins er: 

Sköpun: Að stuðla að tónsköpun ungs fólks og hvetja börn og ungmenni til að semja eigin tónlist.

Skráning: Að aðstoða börn og ungmenni við að fullvinna hugmyndir sínar í vinnusmiðju og varðveita þannig tónlistina.

Flutningur: Að gefa börnum og ungmennum tækifæri á að upplifa eigin tónlist í flutningi fagfólks við kjöraðstæður á tónleikum í Hörpu. Tónverkin verða  flutt á glæsilegri tónleikadagskrá í Silfurbergi í Hörpu. Tónleikarnir eru hluti af opnunarhátíð Barnamenningar í Reykjavík. Hljóðfæraleik og framkvæmd annast fagfólk í tónlist. Öll verkin sem flutt verða á tónleikunum hljóta tónsköpunarverðlaunin: Upptakturinn 2022.

 

Upptakturinn er á vegum Hörpu í samstarfi við Barnamenningarhátíð Reykjavíkur, Tónlistarborgina Reykjavík, RÚV og Listaháskóla Íslands. Í samstarfi við Upptaktinn eru einnig Tónlistarmiðstöð Austurlands, Garðabær, Borgarbyggð, Seltjarnarnesbær, Kópavogsbær og Menningarfélag Akureyrar. Verkefnastjóri Upptaktsins er Elfa Lilja Gísladóttir 

SJÁ MEIRA

 

This site is registered on wpml.org as a development site.